mánudagur, 29. desember 2008

Ég eldaði...

... blaðlauks kartöflusúpu í kvöldmatinn. Hún var bara ansi góð og með voru heimabakaðar gerbollur. Er ég ekki myndó????

laugardagur, 27. desember 2008

Jólin hafa verið...

... hreint út sagt frrrrábær. Á aðfangadagskvöld spiluðu gullmolarnir mínir í aftansöngnum kl. 18. Ég get nú ekki sagt annað en ég hafi verið afar stolt af mínu liði. Við áttum saman gott og afslappað kvöld. Á jóladag drifum við okkur á fætur og vorum komin út í Kirkjubæ kl. 13. Þar spilaði tríóið aftur með pabba. Mér fannst þetta í raun mun hátíðlegri stund en kvöldið áður. Það er eitthvað við það að fara út í sveit og fara í gamla kirkju, sitja á hörðum bekkjum. Mér fannst alveg sérstakt að sjá sólina skína inn um gluggana svo fallega appelsínugula. Ekki spilltu glitskýin á leiðinni heim fyrir. Á annan fórum við í boð til mömmu og pabba. Við borðuðum góðan mat og spiluðum. Það var virkilega gaman og notalegt. Í dag drifum við hjónin okkur loksins út í göngutúr. Við erum orðin helst til miklar sófakartöflur og er meiningin að breita því.

Í dag á tengdapabbi afmæli og óska ég honum innilega til hamingju með daginn.

sunnudagur, 21. desember 2008

Jólaundirbúningurinn...

... í fullum gangi. Fyrir þá sem langar til að fylgjast með okkur á 16 þá erum við að verða búin að ÖLLU!!!!! Búið að þrífa stofu, eldhús, herbergi stelpnanna, taka til í skotinu á ganginum og þvottahúsinu. Í dag var jólatré sótt og valdi Brynhildur tréð. Hún hefur kvartað undan því hversu hátt jólatré foreldrarnir velja. Hún vill lítið jólatré. Nú fékk hún sem sagt að ráða. Fór með afa upp í skóg að ná í tré. Mér var nú ekki alveg sama og sagði við hana áður en hún fór að það mætti nú ekki vera mikið minna en hún sjálf. Auðvitað ekki svaraði sú stutta, því þá komum við ekki öllu skrautinu á tréð. Mér var mikið létt. En hér eru myndir úr skóginum í dag.







föstudagur, 19. desember 2008

AAAHHHHHHHHH...

... jóóóólafrrrrí...........................

fimmtudagur, 18. desember 2008

Í dag var...

... síðasti kennsludagur fyrir jól hjá okkur mæðgum. Það er jólaskemmtun fyrir Þorgerði í kvöld og jólaböll fyrir okkur Brynhildi á morgun. Brynhildur les upphaf jólasveinakvæðisins Jóhannesar úr Kötlum og ætla ég að hlusta á hana. Hlakka til. Stór dagur er hjá Þorbirni. Hann útskrifar í fyrsta skiptið. Ég hlakka til þegar við erum öll komin í frí og getum byrjað að undirbúa jólin saman. Var að vona að á sunnudaginn yrði aftaka bylur en mér verður ekki að ósk minni.

sunnudagur, 14. desember 2008

Bakstur

Ég er afskaplega ánægð með okkur hér á 16. Á föstudaginn voru bakaðir Sörubotnar og smurt ofan á þá og þeir hjúpaðir í gærkvöldi. Í dag er frumraun mín í Stollubakstri. Nú er "stollan" mín í ofninum svo ég get svo sem ekki montað mig mikið ennþá en ég er afskaplega ánægð með mig.

Í gær var frábær jólamarkaður. Við keyptum okkur rykkling og síld. Við smökkuðum reykt geitarkjöt sem bragðaðist mjög vel og síðast en ekki síst hrátt hangikjöt. Hægt var að fá ketilkaffi, vöfflur og rússasúpu. Margt fallegt og skemmtilegt var að skoða og sjá. Hlakka til ef skógarbændur á Héraði taka aftur upp þráðinn fyrir næstu jól.

þriðjudagur, 9. desember 2008

Ég er orðin...

... dálítið þreytt á kvefinu sem á mig hefur herjað. Sé fram á að vera heima þriðja vinnu daginn í þessari viku. Ég er búin að vera stútfull af kvefi síðan á föstudag og ekki bætti úr skák að í gærkvöldi blossaði upp mjög svo óþægileg hálsbólga. Ef geðheilsan fengi að ráða væri ég mætt í vinnu. Þetta er hreint út sagt ömurlegt ástand á mér.

sunnudagur, 30. nóvember 2008

Enn ein helgin...

... á enda runnin. Þessi var mjög viðburðamikil miðaða við margar aðrar. Toppurinn var að í dag voru tvær litla frænkur hér hjá okkur. Systurnar Helga Kolbrún og Katrín Jökla voru hjá okkur meðan foreldrarnir brugðu sér af bæ. Við Þorbjörn fengum að rifja það upp að vera með tvær dömur aðra að verða 4 ára og hin að verða 10 mánaða. Við komumst að því að við höfum engu gleymt. Nú sitjum við í rólegheitunum og hlustum á jóladisk Anne Sofie von Otter og slöppum af. Diskurinn er þvílíkt dásamlegur.

föstudagur, 28. nóvember 2008

Í gærkvöldi fór...

... ég á námskeið í gerbakstri. Heimilisfræði kennarinn við skólann var með þetta námskeið. Lærði fullt af trikkum og er nú mun færari í að baka úr geri en áður, var samt mjög góð fyrir. Bakaði gómsæta afmæliskringlu, klippta og allt, sem rann vel niður í dætur og vinkonur þeirra í dag. Ég er svo ánægð með mig. Nú sit ég ein og sötra öl. Kallinn er að passa unglingana í skólanum sínum. Það er ball og ekki von á honum fyrr en seint. Grey hann.

laugardagur, 15. nóvember 2008

Berlínaraspirnar

Ég var að klára alveg yndislega bók. Berlínaraspirnar eftir Anne B. Ragde. Ef einhvern vantar lesefni þá mæli ég með henni. Bíð spennt eftir framhaldinu.

mánudagur, 3. nóvember 2008

Ekki gott að heyra

að Malarvinnslan sé að rúlla yfir. Fyrirtækið hefur verið áberandi hér frá því ég man eftir mér. Vonandi heitt og innilega að það takist að bjarga þessu fyrir horn svo fólk missi ekki vinnuna. Við hér höfum ekki fundið mikið fyrir þrengingunum fyrr en nú.

föstudagur, 31. október 2008

Dásemd

Það er svo dásamlegt að vera einn heima. Fara í sjóðheitt bað og hlusta á páfagaukinn syngja frammi. Þetta er nauðsynlegt annað slagið.

föstudagur, 24. október 2008

Frumburðurinn er á ...

... leiðinni á ball. Fórum í dag í búðir og splæstur foreldrarnir í þessa æðislegu skó. Veit ekki hvaðan hún hefur það að velja sér svona áberandi skó. Í fyrra valdi hún sér silfurskó og nú rauða. Smekklegir eru þeir. Sjálf keypti hún sér kjól. Mér finnst ég eiga,já og við, eiga afskaplega fallega stelpu.





miðvikudagur, 22. október 2008

Mikið afskaplega...

... hlakka ég til jólanna!!!!!!!

föstudagur, 10. október 2008

Það var virkilega...

... notalegt að hafa enga miðla í gangi í kvöld. Slökkt var á sjónvarpi og útvarpi. Höfðum engan áhuga að heyra meira um þetta allt saman. Fyrir vikið áttum við sérlega notalega stund. Það er langt síðan ég hef legið með bók uppí sófa um kvöldmatarleitið á föstudegi. Ég mæli með því. Nú eru stelpurnar farnar í rúmið og ég bíð eftir tenórnum en vinnan kallaði í kvöld. Vel á minnst ég sá Tenórinn í gærkvöldi. Ég var mjög stollt af frændum mínum. Skemmti mér konunglega.

þriðjudagur, 30. september 2008

Síðustu dagar og...

... vika hafa verið ansi skemmtilegar. Við skuppum um daginn til Akureyrar. Gerðum ekkert nema það sem okkur þótti gaman. Fórum út að borða, versluðum smá, kíktum í jólahúsið, sáum andanefjurnar, fórum í sund og enduðum á að sjá Mamma mia og skemmtum okkur konunglega. Komum heim rúmlega sólahring frá brottför endurnærð. Um síðustu helgi vorum við svo heppin að fá Hallveigu í heimsókn. Það er svo gaman að fá ættingja til okkar. Í dag vöknuðum við svo upp við snjókomu. Nú er haustið komið snjór, hálka og alles. Mamma og pabbi á leiðinni. Hlakka mikið til að hitta þau.
Í vinnunni er gaman. Mótleikari minn og ég erum bara gott par. Náum saman og skemmtum okkur.

miðvikudagur, 24. september 2008

Nú er miðvikudagur...

... en mér finnst vera föstudagur. Vikan fór heldur skarpt af stað og orkan farin að minnka nú þegar. Hvernig verð ég á föstudaginn?????

laugardagur, 6. september 2008

Dagur haustverkanna

Byrjuðum daginn á því að tína af rifsberja og sólberjarunnunum. Svo var soðið og fengin hrásaft. Nú er allt komið á flöskur og inn í frysti. Eigum nebblea engar krukkur þessa stundina. Ég fór með þær allar til að nota í skólanum. En þá er bara að safna aftur og taka einn og einn lítra úr frysti og búa til hlaup. Svo var pantað austurlamb frá Steina og Soffíu. Nú er fyrstiskápurinn okkar orðin nánast fullur. Kannski förum við á morgun og tínum nokkra sveppi. Vonum að veðrið verði jafn gott og í dag, 17 stig og sól.

laugardagur, 30. ágúst 2008

Nákvæmlega fyrir ári...

... lá ég niðri á heilsugæslu með annanstigs bruna í andliti og öxl. Ég minntist á þetta við bóndann og við brostum bæði. Gott að þetta hafði ekki meiri áhrif á okkur en það. Nú þarf ég ekki að vara mig eins mikið á sólinni eins og ég hef gert. Ég fer sem sagt úr sólarvörn 50+ í 20. Stelpurnar eru að búa til rifsberjakrap. Hlakka til að smakka.

föstudagur, 29. ágúst 2008

Þá er fyrsta...

... kennsluvikan á enda. Ég verð nú að viðurkenna það að ég er ansi þreytt. Það verður gott að sofa út í fyrramálið.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Þegar allir eru ...

... að lýsa stolti yfir strákum í Reykjavík sem svo sannarlega hafa staðið sig vel langar mig miklu meira að hrósa bóndanum mínum (stráknum mínum). Ég er svo afar stolt af því hversu vel hans stendur sig í nýja starfinu. Hann á virkilega skilið viðurkenningu þó ekki væri nema klapp á bakið fyrir dugnað og elju.

laugardagur, 23. ágúst 2008

Ég er afskaplega...

... ánægð með Konna sem rekur BT hér á Egilsstöðum. Brynhildur var búin að fá leyfi til að kaupa tölvuleik fyrir 12+. Einhver Sims útgáfa. Hún fór með pening í BT en fékk ekki að kaupa leikinn nema foreldri væri með og gæfi samþykki sitt. Hún hringdi því í okkur ég fór niður eftir og hrósaði Konna fyrir gott aðhald. Hann var mjög þákklátur fyrir hrósið en sagði jafnframt að það væru nú ekki allir foreldrar ánægðir með þetta og létu hann heyra það. Ég spyr mig af hverju?

sunnudagur, 17. ágúst 2008

Ormsteitið

Nú er Ormsteitið í fullum gangi. Á föstudaginn byrjaði teitið með glæsilegri karnivalgöngu. Brynhildur var svo heppin að fá að taka þátt í göngunni upp á íþróttavöll.

Hún var svona blóm (tekið í annarri göngu)



og leit svona út í framan



Eftir hátíðina var gengið niður að fljóti á eftir alls kyns upplýstum verum og fyrirbærum.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Sumarfríið á enda

Nú er sumarfríið mitt senn á enda. Á morgun fer ég á námskeið í tvo daga og svo byrjar ballið. Ég hlakka virkilega til að takast á við veturinn. Ég er virkilega ánægð með þetta frí. Það er svo langt síðan við höfum ferðast um landið. Við erum virkilega að finna okkar í útilegunum. Gerum örugglega miklu meira af því næsta sumar.

mánudagur, 11. ágúst 2008

Um helgina...

... héldum við mamma og Brynhildur upp á afmæli okkar allra. Mamma var sjötug, ég fertug og Brynhildur tíu. Við héldum veislu í bústað Kobba og systkina, Litlu-Grund. Það var virkilega gaman hversu margir sáu sér fært að koma og fagna með okkur. Mér fannst þetta virkilega gaman. Það var veitt í litla vatninu, farið inn í Hvanngil, sungið, spjallað, hlegið og borðað. Því miður á ég ekkert nema myndupptökur af veislunni þar sem mér áskotnaðist þessi fína upptökuvél í afmælisgjöf frá tengdafjölskyldunni. Í gær keyrðu svo allir heim og komum við hingað seinnipartinn örþreytt en virkilega ánægð eftir helgina. Enn og aftur takk fyrir mig. Ég á virkilega frrrábæra fjölskyldu.

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Aðgerðalausir dagar

Stundum þoli ég ekki að vera í fríi. Síðustu daga hef ég hangið hérna heima og ekki haft mig upp í að gera eitt né neitt. Góni á fatahrúgurnar daufum augum og sötra hálfkalt kaffi. Orka og dugnaður ég leita ykkar!!!!!

laugardagur, 2. ágúst 2008

Ferðahandbækur

Við hjónin höfum uppgötvað það að við eigum bara ansi margar góðar ferðahandbækur. Í sumar áskotnaðist okkur 101 Ísland og höfum notað hana þó nokkuð. Þá eigum við Ferðahandbók fjölskyldunnar þar eru margir spennandi punktar. Við keyptum okkur bók um Hornstrandir. Hún var auðvitað notuð óspart á Hornströndum. Þegar ég var svo að leita að einhverju í grænuhillunni rakst ég að enn eina ferðahandbókina. Hún heitir Íslensk fjöll. Í henni eru leiðarlýsingar á 151 tind á Íslandi. Á morgun er því áætlað að taka hana með og ganga á Hvítserk í Borgarfirði. Vonandi verður ekki þoka.

miðvikudagur, 16. júlí 2008

Hún Brynhildur okkar...

... er 10 ára í dag. Til hamingju með daginn!



Afmælisbarnið með Hælavíkurbjarg í baksýn.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Sýnishorn af ...

... Hornströndum og Barðaströndinni.



Systurnar komnar í land í Hornvík. Nú var eftir ganga yfir í Látravík. Bærinn Horn í baksýn.



Þorbjörn við Blakkabás.



Þorgerður um borð í Sædísi við fossinn í Blakkabás sem sést vel á myndinni á undan.



Brynhildur rétt við Hornbjargsvita eftir góða gönguferð.



Ég að taka hluta af Rauðasandi með mér handa Álfheiði!!!

mánudagur, 14. júlí 2008

Jæja þá erum við...

... komin til baka. Fríið okkar vestur var frábært. Það er alltaf svo gaman að koma á nýjar slóðir. Þorbjörn segir nánar frá þessu á síðunni sinni. Já og nú er ég orðin fertug. Það er meiriháttar trúið mér.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Sú eldri er ...

... komin heim. Reyndar kom hún á laugardaginn. Nú er hún sliguð af vera ekki heimareynslunni, borða ekki pabbamatsreynslunni í heila viku og mjög mörgum fleirum reynslum.

Við erum mjög stolt af henni.



Er hún ekki verkleg?

fimmtudagur, 26. júní 2008

Vikan hefur verið...

... hálf undarleg. Þorbjörn svona hálfur eða 75% í fríi og frumburðurinn á námskeiði á Eiðum. Hún var svo heppin að fá að taka þátt í listanámskeiði á vegum Myndlistaskóla Reykjavíkur og Eiða ehf. Fljótsdalshérað styrkti þetta verkefni og fengu því 8 krakkar úr sveitafélaginu að vera með. Hún fór á sunnudaginn og við höfum lítið sem ekkert heyrt í henni síðan. Það verður ansi gott að fá hana heim næstu helgi. Þorbjörn hefur verið með anna fótinn í vinnu. Hann fer greinilega ekki almennilega í frí fyrr en við höldum burt af staðnum.

laugardagur, 21. júní 2008

Skógardagurinn mikli

Dagurinn byrjaði á því að við hjónin keyptum okkur svefnpoka. Ég á virkilega eftir að sakna þess að sofa ekki í sama poka og Þorbjörn. Jú, sko við höfum sofið í gömlum Gefjunarpokum sem hægt er að renna tveimur saman og búa til hjónapoka. Gefjunarpokarnir eru síðan ég var pínulítil stelpa. Svo keyptum við dót sem Þorgerður þarf að hafa á listanámskeiðinu og brunuðum svo upp í Hallormsstað. Þar var skógardagurinn haldin hátíðlegur. Heilgrillað naut, ketilkaffi, lummur steiktar yfir eldi, pylsur, drykkir, skógarhögg og markt fleira var að gerast eða á boðstólnum. Brynhildi varð að orði uppfrá að sig langaði í nautakjöt í kvöldmatinn. Það þurfti ekki að nauða mikið til þess að fá því framgengt. Nú eru kartöflurnar á grillinu, sósan tilbúin og húsbóndinn setur fyrir framan skjáinn að horfa á fótbolta. Skellum kjötinu á eftir smá tíma.

föstudagur, 20. júní 2008

Það er dálítið..

... undarlegt það sem gerst hefur undanfarna daga. Maður hefur alltaf getað gengið um landið öruggur með sig. En nú er ég allt í einu ekki alveg viss. Við ætlum að fara vestur eftir tvær vikur. Gistum í Hornbjargsvita og ganga yfir í Hornvík. Ég er búin að hlakka mikið til en nú er ég ekki viss hvort ég hlakka til alla vega ekki að ganga. Veit vel litlar líkur og allt það en samt. Þetta er frekar skrítin tilfinning. Kannski er þetta það sem koma skal að vera á útkíkkinu eftir hvítabjörnum þegar farið er út í náttúruna. Jafnvel best að venjast því strax.

þriðjudagur, 17. júní 2008

Gleðilega hátið!

Dagurinn var bara nokkuð góður. Stelpurnar fengu blöðrur og pening til að eyða í hitt og þetta. Sú yngri var fljót að eyða sínu öllu. Húsmóðirin var ein af sex bæjarbúum sem röltu með lúðra eða flautur fyrir skrúðgöngunni. Við stóðum okkur bara vel en vonandi verða fleiri næsta ár. Fremstir í göngunni voru hestamenn á fákum sínum svo komur skátar með fána og þar á eftir lúðrarnir. Við máttum hafa okkur öll við að stíga ekki í dellur sem voru á götunni. Reyndar var ég með aðstoðarmann sem varaði mig við en tókst samt að stíga í góða dellu. Milli kl. 15 og 16 sáum við hjónin svo um lukkuhús á vegum fimleikadeildarinnar. Það var mikið að gera og skemmtilegt að aðstoða stúlkurnar sem að þessu stóðu en þeirra á meðal var okkar yngri. Hún tók þátt í fimleikatriði og stóð sig glæsilega eins og alltaf. Í kvöld ætlum við að horfa á fótbolta og kíkja kannski á fjölskyldudansleik í íþróttahúsinu með stelpunum.

sunnudagur, 15. júní 2008

Þessi litla stúlka...



... var skírð í gær. Hún fékk nafnið Katrín Jökla. Athöfnin fór fram í Eiríksstaðakirkju á Jökuldal. Dagurinn var heiður og fagur. Katrín litla gat ekki verið heppnari með skírnardag.



Fallegur dagur ekki satt.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Við unnum...

... rauðvínspottinn annan mánuðinn í röð. Við sem erum ekki hálfnuð með fyrri vinninginn!!!!!!!!!!!!

Þá er ég ...

... komin í sumarfrí. Endaði þetta starfsár með því að fara á frábært námskeið um bernskulæsi. Jane Baker er yndisleg kona sem miðlaði til okkar frábærum hugmyndum um hvernig kenna á krökkum lestur.

Nú er bara að leyfa sér að fara í frí. Hætta að hugsa um næsta vetur í bili og hlaða niður orku.

þriðjudagur, 27. maí 2008

Þegar ég kom...

... heim í dag var stóóór geitungur í stofuglugganum. Þetta var greinilega drottning. Þorgerður hefur séð flugur koma undan pallinum. Ég gerði mér nú lítið fyrir og drap hana. Það voru ekki skemmtilegar aðfarir. Ég djöflaðist á henni með dagblaði og þegar hún var enn á iði eftir það náði ég í skólablað grunnskólans og hamaðist með því á´enni. Já ég er nú soldil hetja.

fimmtudagur, 22. maí 2008

Hvar eru...

... Færeyingarnir?????

Jibbí húrrei

Við komumst áfram!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Það er hálf...

... asnalegt að frumburðurinn skuli ekki vera heima. Hún fór með bekknum sínum í skólaferðalag á Mývatn. Hún fór í gær og hefur EKKERT haft samband síðan. Hlakka mikið til að fá hana heim á morgun.

Jæja...

... ætli Ísland komist áfram. Bara 2:21 nei 2:14 nei 2:08.... af símakostningu.

miðvikudagur, 21. maí 2008

Í dag drógum...

... við hjónin fram hlaupaskóna að nýju. Höfum ekki tekið sprett í tíu daga vegna krankleika frúarinnar. Vorkvefið herjaði á frúna í nokkuð marga daga. Bóndinn gerði allt sem hann gat til að frúnni batnaði. Söng marga fagra batni söngva. Og nú er frúin góð að nýju. Nú tekur við törn í skólanum. Vitnisburður og frágangur. Eins gott að vera í formi.

Fór annars í svona konu afmæli um helgina. Það var mjög gaman. Og nú er æft á fullu fyrir tónleika á sunnudaginn. Held bara að þetta verði nokkuð góðir tónleikar. Kammerkórinn hefur aldrei verið betri að mínu mati.

sunnudagur, 4. maí 2008

Þessa stundina eru...

... stelpurnar að baka súkkulaðiköku handa okkur í kaffinu. Við ætlum að hafa það rólegt hjá okkur í dag.

föstudagur, 2. maí 2008

Stundum hugsa ég ...

... ekki heldur framkvæmi einfaldlega. Í morgun átti ég svona Össurarmóment. Ég sá á bloggi Álfheiðar að hún hafði bókað bústað. Mér fannst lýsingin geggjuð og stökk til. Kíkti inn á orlofsvefinn og viti menn bústaðurinn var laus akkúrat daga sem hentuðu okkur vel. Hér verður sem sagt gist þrjár nætur á leiðinni heim.



Hafnir á Skaga.

Hér á að vera fjölskrúðugt fuglalíf (fuglakíkir á veröndinni), selir og falleg náttúra allt um kring.

miðvikudagur, 30. apríl 2008

Frekar góð tilfinning....

... að æfingunni sem vera átti í kvöld er frestað. Kannski maður fái sér eitt rautt glas við kertaljós. Rómatíkin allsráðandi. Úti snjóar og snjór og inni kúrum við undir teppi við kertaljós með rautt í glasi. Finnst ykkur þetta ekki æði? Það finnst mér.

sunnudagur, 27. apríl 2008

Hún Þorgerður mín...

... er þrettán í dag. Hún er orðin táningur eins og stóð á einu afmæliskortinu. Til hamingju með afmælið dóttir góð.



Við eigum svo flotta stelpu.

föstudagur, 25. apríl 2008

Í nótt gistu...

... fimm stelpur hjá Þorgerði. Hún hélt upp á afmælið sitt með þessum hætti. Frábærar stelpur. Birti hér myndir þar sem þær flatmaga. Þær sofnuðu fyrr en mig dreymdi um. Klukkan rúmlega eitt var orðið hljótt. Klukkan rúmlega sjö var ekki lengur hljótt.




Um síðustu helgi...

... skruppum við norður í land. Ég sótti ráðstefnu á Akureyri á meðan renndu Þorbjörn og stelpurnar sér fimlega niður brekkur Hlíðarfjalls. Ég verð að birta myndir af þeirri frábæru ferð. Ég er svo ánægð fyrir þeirra hönd að hafa loksins komist á skíði fyrir norðan. Þetta hefur lengi verið draumur. Næst kem ég með.




miðvikudagur, 23. apríl 2008

Í Egilsstaðaskóla eru...

... frrrábærir nemendur og frrrábærir kennarar. Egilsstaðaskóli er sko besti skóli í heimi ;) Takk fyrir frrrábæran dag.



Hér er nemandi í 4 H að vinna eitt af verkefnunum.

mánudagur, 14. apríl 2008

Tár í augum

Ég dag fékk ég yndislega gjöf. Gamall kennari minn gaf mér möppu með alls kyns dóti sem hún hefur sankað að sér um tíðina. Hún Ninna kenndi mér í 3, 4, 5, og 6 bekk. Mér þykir ákaflega vænt um þessa gjöf. Ég á örugglega eftir að nýta mér helling af þessu. Fann t.d. bókmenntaverkefni um Múmínálfana, þemaverkefni um ævintýri, léttlestrarhefti og margt, margt fl.

sunnudagur, 13. apríl 2008

Það var virkilega...

... notalegt að fá bóndann fyrr heim í gær. Hann ætlaði að koma seinnipartinn en tók hádegisvélina í staðinn. Ég ætlaði að vera búin að skúra, skrúbba og bóna áður en hann kæmi, tókst náttúrulega ekki. Í dag er hann farin á skíði ásamt yngri dóttur og vinkonu hennar. Ég búin að fara út að hlaupa og heimsækja systur og frænku. Hún er alveg óttalega mikil dúlla. Í dag ætla ég að slappa af, vinna svolítið og fara á tónleika. Hlakka til.

sunnudagur, 6. apríl 2008

Í gær....

... skannaði Þorbjörn inn nokkrar eldgamlar myndir. Hverjir ætli séu á þessum myndum?



sunnudagur, 30. mars 2008

Glöð stelpa...


... eftir gott fimleikamót, tvö gull og eitt silfur. Geri aðrir betur.

Bóndinn gaf mér...


... þessa fínu flík í jólagjöf. Algjör dásemd í hretinu.

Við keyptum...

... okkur vinnukonu á föstudaginn. Hljóðlát og gerir það sem við biðjum um. Bara að ýta á einn takka og þá malar hún eins og köttur.

sunnudagur, 23. mars 2008

Gleðilega páska!

Þá erum við aftur komin heim. Suðurferðin var bara hreint ágæt. Við versluðum dálítið mikið en gerðum margt annað skemmtilegt t.d. fór stórfjölskyldan í myndatöku. Ég hitti sérfræðinginn minn vegna brunasáranna. Fékk kannski ekki mikið út út því og þó. Þorbjörn túlkaði Pílatus í Hallgrímskirkju í Jóhannesarpassíu eftir Arvo Pärt. Hann brá ekki út af vananum og söng eins og engill, kannski ekki hægt að líkja Pílatusi við engil. Á föstudaginn langa keyrðum við heim í yndislegu veðri. Í gær var keypt inn fyrir páskana. Nú lítur húsið virkilega vel út, túlípanar, páskaliljur og annað páskaskraut prýða stofuna. Við fórum og kíktum á litlu frænku sem er að sjálfsögðu algjör dúlla. Í dag er jafnvel hugmynd að fara á skíði. Kannski frúin bregði sér með þó ekki til að renna sér. Njótið dagsins.

mánudagur, 17. mars 2008

Mikid afskaplega er...

...gaman ad fara ad versla fot a unglinginn. I gaer forum vid og keyptum fot a Thorgerdi. Hun matadi og matadi. Valdi svo thrar fallegar flikur. Mamman skemmti ser konunglega.

sunnudagur, 16. mars 2008

Tha erum vid...

... komin til hofudborgarinnar. Vid komum i gaer. Logdum af stad eftir hadegid. Brynhildur var ad keppa a fimleikamoti og rakadi thar inn verdlaunum. Foreldrarnir eru afar soltir af henni. Hun skin eins og sol i heidi. Ferdin var long en skemmtileg. Landid skartadi sinum fegursta vetrarbuningi. Vedrid gat ekki verid betra. Nu taka vid verslunadagar, heimsoknir, samverustundir med skyldmenum og innlit til serfraedinga.

þriðjudagur, 11. mars 2008

Þá er upplestrarkeppnin

... búin. Þorgerður stóð sig afskaplega vel. Ég er mjög stolt af henni. Verst hvað ég var stressuð.

sunnudagur, 9. mars 2008

Sú eldri var...

... var að æfa sig fyrir stóru upplestrarkeppnina sem fram fer á þriðjudaginn. Í undankeppninni heyrði ég hana lesa og las hún vel en aðeins of hratt. Í dag hafa foreldrarnir verið að hægja á lestrinu, reyna a.m.k. Vona að hún hljómi ekki eins og Dóóóóóraaaaa ííííííí Neeeeeeeeeemóóóóóóó þegar til skal taka.

laugardagur, 8. mars 2008

Stelpurnar bjuggu til...

... æðislegan eftirrétt í ísvélinni. Tropical sorbet. Ýkt góður.

Eins og tenórinn...

... segir á blogginu sínur er síðasti hreindýrsbitinn runnin niður. Hvílíkt og annað eins. Allir bitarnir sem við borðuðum bráðnuðu upp í okkur (reyndar ekki hakkið). Í kvöld var lund og þrihyrningur. Þeir voru mis þykkir. Þess vegna ákváðum við að steikja allt jafn lengi. Stelpur eru, eða það héldum við, ekki hrifnar af rauðu kjöti. Annað kom í ljós. Sú eldri sagði meira að segja: Ég þarf ekkert að bíta í þetta, kjötið bráðnar upp í manni. Allir fengu þó að smakka rautt og mjúkt kjöt. Ákváðum að gera þetta aftur næsta haust þ.e.a.s að kaupa aftur hreindýr. Vonandi verðum við jafn heppin.

Annars spiluðu stelpurnar á tónleikum í dag. Við foreldrarnir eru ákaflega stolt af dætrum okkar. Vel gerðar og góðar stelpur.

Bis bald!!!!!!

föstudagur, 29. febrúar 2008

Rólegt föstudagskvöld

Þetta kvöld hefur verið afskaplega rólegt. Sú eldri í þorrablóti skólans, ég veit góa byrjuð. Smá togstreita á heimilinu hvort hún mætti mála sig. Ég gaf eftir og keypti maskara og svo á hún gloss. Hún fór sem sagt svaka fín og sæt á blótið. Kom heim um 22:30 bara nokkuð ánægð. Við Brynhildur vorum tvær heima með flögur og kók. Horfðum saman á Barnaby. Ég hef ekki tölu á kossunum sem hún gaf mér. Henni fannst greinilega notalegt að eiga mömmu bara ein litla kvöldstund.

laugardagur, 23. febrúar 2008

Verð að upplýsa...

... eftir væl síðustu helgar, að síðasta vika var bara nokkuð góð. Fleiri sérfræðingar komnir með puttana í þetta. Vonandi að niðurstaða fáist í málið.

Kláraði foreldraviðtölin í gær. Var gjörsamlega búin eftir þetta. Lá í sófanum í gærkvöldi varla með rænu. Um helgina ætla ég að reyna að klára vestið sem ég er að prjóna, vonandi gengur það. Nú er ég að leiðinni út að hlaupa. Ekki veitir af smá hreyfngu. Húsbóndinn farin á skíði með þá eldri. Í gær keypti hann skíðaboga á bílinn. Erum alveg afskaplega útivistarlega á jeppalingnum okkar.

mánudagur, 18. febrúar 2008

Sit uppi í..

... stofunni minni og geng frá námsmati. Það er hálf skrýtið að hugsa til þess að þetta eru síðustu foreldraviðtölin sem ég tek við þennan hóp. Fjögur ár hafa liðið hratt. Ég sit sem sagt hér upp ein og hlusta á góða tónlíst á meðan ég pikka inn umsagnir. Úti er sól og blíða. Öfunda krakkan að eiga frí í dag. Ætli Eyjólfur sé ekki bara að hressast. Ég vona það að minnstakosti.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Er orðin heldur

langþreytt á þessu brunasári mínu. Allir virðast ráðþrota og engin skilur af hverju þetta grær ekki almenninlega. Síðasta vika var hreint út sagt ömurleg. Ofsakláði og pirringur. Eftir samtal við húðsjúkdómalækninn sem hér starfar var ég sett á bakteríudrepandi pillur. Eftir tvær slíkar var allta annað uppi á teningnum. Eðlileg sár með hrúður og nánast engin kláði. Hversu lengi ætli þetta haldist svona áður en allt fer á saman veg? Verð aðeins að væla utan í örðum en mínum eiginmanni. Hann er búin að innbyrgða ansi mikið af væli í mér undanfarið hálf árið.

Jæja þá er búið að hella úr sér og þá er bara að halda áfram í Pollýönnuleiknum og setja upp brosið :)

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Hvernig verð ég...

... í vor ef ég er nú þegar að leka niður af þreytu. Vikurnar eru ansi langar hjá mér og ekki var þessi neitt styttri þó einn kennsludagur féll nánst niður. Ég er úrvinda.

laugardagur, 2. febrúar 2008

Ég er...

... afskaplega fegin að búa ekki í torfkofa. Úti er hræðilega mikið frost enda þorri samkvæmt gamla tímatalinu. Fór til mömmu og pabba í gærkvöldi og hitaði mér við kamínuna þeirra. Ég bara verð að fara að fá mér svona. Þetta er svo rosalega notalegt.

laugardagur, 26. janúar 2008

Sátum nokkrar....

já nokkrar á vinnustofu kennara í gær þegar ein kallar upp yfir sig: Stelpur hvað erum við að gera hérna, Tommy Lee er út´á flugvelli!!!!!!!!!

mánudagur, 21. janúar 2008

Mér leiðist...

... yfirleitt pólitísk umræða. Aftur á móti finnst mér umræðan síðustu daga hafa verið einkar skrautleg og ekki síður fáránleg. Umræðan hefur einkennst af afbrýðissemi, valdagræðgi og vonbrigðum. Þessir pólitíkusar eru allir eins. Eru til í að hoppa undir aðra sæng ef eitthvað annað betra býðst. Borgarfulltrúar í Reykjavík hvar er umburðalyndið og náungakærleikurinn. Ætli flestum sé ekki sama um fötin hans Björns Inga sem hann hvort sem er getur ekki notað lengur því hann er orðin svo feitur (hans orð). Kannski hann gefi þessi gullföt í rauðakrossinn. Látið mig vita ef þið mætið róna í fötum frá Sævari.

föstudagur, 18. janúar 2008

Höfðum smá...

... fjölskyldustund hér hjá okkur í kvöld. Horfðum saman á Amadeus. Hækkuðum vel í og nutum. Sitjum núna með rauð nef, rauð augu og vasaklúta í hendi. Myndin er æðisleg og ekki spillir tónlistin fyrir.

miðvikudagur, 16. janúar 2008

Þessa stundina...

... eru átta stelpur hér að horfa á Hairspray. Það er mikil gleði í hópunum þær dansa og syngja með. Sem sagt rosa fjör.

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Frí frá...

... heilsugæslunni næstu tvær vikurnar. Það er ákveðin léttir. Enn er nokkuð langt í land en allt stefnir þetta þó í sömu átt.

laugardagur, 12. janúar 2008

Svaaakalega....

... öfundaði ég Þorbjörn og stelpurnar í dag. Þau brugðu sér á skíði í Oddskarð. Veðrið var dásamlegt. Vonandi verð ég búin að liðka öxlina í lok mánaðarins svo ég komist með.

Á meðan þau skemmtu sér í brekkunum fór ég á minningarathöfn samkennara míns. Það var falleg athöfn í Eiðakirkju.

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Útsala

Það er útsala í fatabúðinni á Egilsstöðum.


sunnudagur, 6. janúar 2008

Jól í kassa

Þá er búið að setja jólin ofan í kassa fyrir utan einn grip sem við ætlum að njóta aðeins lengur. Kláruðum að taka allt niður þ.á.m. jólatréð. Húsbóndinn var sem betur fer heima svo allt gekk hratt og vel fyrir sig. Nú er hann úti með dætrunum að skjóta upp pínulitlum flugeldum sem við fundum í þvottahúsinu frá því í fyrra. Öll skemmta þau sér konunglega.

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Veruleikinn

Þá tekur veruleikinn við og afslöppunin að baki. Á morgun byrja ég aftur að vinna. Þorbjörn er þegar byrjaður og er ekki mikið búist við honum heima fyrr en eftir helgi. Nú er bara að fara að taka jóladótið niður. Ég ætla mér að taka niður jólagardínurnar í eldhúsinu í dag og eitthvað fleira jóladót. Mér finnst alltaf hálf sorglegt að setja jóladótið í kassa.

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Gleðilegt ár!

Ég óska öllum gleðilegs árs og farsældar á því næsta. Hér voru strengd stór og mikil heit sem efna á. Áttum góð áramót á planinu með systur, mági, frænku og grönnum.