mánudagur, 31. desember 2007

laugardagur, 29. desember 2007

Mikið var...

... ég ánægð með það að Margrét Lára Viðarsdóttir var valin íþróttamaður ársins. Það er ekki oft sem kona lendir í fyrsta sæti og hvað þá knattspyrnukona. Mér fannst samt heldur vandræðalegt þegar farið var að spila myndskeið eftir kjörið. Sömu mörkin voru sýnd aftur og aftur með misjafnlega miklum hraða. Kannski til að reyna með veikum mætti að klóra yfir það hversu lítið er tekið upp af kvennaleikjum. Þetta fékk a.m.k. á tilfinninguna.

fimmtudagur, 27. desember 2007

Mikið held ég...

... að ég sé frábær mamma. Missi mig algjörlega í bangsafötunum. Mikið held ég að sú yngri verði ánægð með mig, en kannski ekki sú eldri. Kannski er ég ekki svo góð mamma eftir allt?

föstudagur, 21. desember 2007

Í dag...

... fékk ég hryllilegan verk í peningaveskið. Þreif allt eldhúsið (nema bakarofninn). Tókum meira að segja fram ísskápinn (hann var ansi loðinn á bakinu). Gerðum sörur. Til að koma sörunum í frysti sauð ég upp af rúmum 2 kg. af rifsberjum. Frekar mikill haustilmur í húsinu. Lífið er loflí.

miðvikudagur, 19. desember 2007

Nú er bara...

... jólaball eftir og nokkrir undirbúningstímar með ´Fjólu og Lindu í fyrramálið. Annars er ég ekki alveg til í að fara í frí. Ég er búin að vera svo mikið í veikindaleyfi frá hausti að samkvæmt mínu innbyggða mánaðartali eru jólin alls ekki að koma. Skrítið hvað allt breytist þegar við tökum smá beygju af okkar venjulega róli. En ég hlakka samt til jólanna. Við komum okkur í stuð þegar við hjónin erum komin í frí.

sunnudagur, 16. desember 2007

Jólamarkaður

Í dag fór ég á frábæran jólamarkað. Skógarbændur á héraði stóðu fyrir þessu. Þarna var handverksfólk að selja sínar vörur, jólatré til sölu, boðið upp á ketilkaffi, súpu að hætti Hrafns heitins á Hallormsstað og ekki síst allt hangikjötið. Kjósa á kjötkrók svæðisins. Keppendur voru níu. Allir sem vildu fengu að smakka og kjósa besta kjötið. Það voru tveir sem stóðu upp úr að mínu mati. Frábær stemming.

fimmtudagur, 13. desember 2007

Enn og aftur...

... er komið að jólasamkundu kennara í Egilsstaðaskóla. Við hittumst út á Eiðum, snæðum hangiket og drekkum malt og appelsín. Spjallað, helgið og að lokum eru allir leystir úr með jólagjöfum. Notaleg stund í góðum félagsskap.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Ó nei...

... það er ekkert planað bloggfrí frekar andleysi. Veit t.d. ekki hvað ég get sagt meira nema þá helst að Dalaprinsinn er úti að skafa af stéttinni í hvítum stígvélum. Annars verður æ jólalegra, úti er hláka og allur snjór að hverfa. Er það ekki venjan rétt fyrir jólin? Rok og rigning svo allar skreytingar liggja á hliðinni, sá nokkrar í morgun í tannlæknagötunni. Ég man að fyrir ári síðan var allt á kafi í snjó, tré í hvítum fötum eins og í amerískum kvikmyndum. En svo kom fröken hláka og allt fór í burtu og jólin urðu verulega rauð. Ég bloggaði nebblega um þetta í fyrra og hefði birt það hér ef ég hefði ekki eytt öllu í smá kasti.

föstudagur, 30. nóvember 2007

Pú og Pa

Á morgun byrjar þáttaröðin um Pú og Pa. Skondið að sú eldri man hvað er í fyrsta glugganum. Þetta er í þriðja sinn sem dagatalið er sýnt á RUV. Í fyrsta skiptið var sú eldri orðin til en ekki fædd og í síðara skiptið 5 ára. Það er sem sagt ponsu spenna.

Úti er virkilega...

... jólalegt. Í dag hefur verið slydduhríð og því notalegt að vera inni. Ég kom frekar snemma heim úr vinnunni. Frekar notó. Setti jóladisk á og mændi út í hríðina. Fæ mér kannski einn öllara, pöllara í kvöld. Enn meira notó. Annað kvöld ætlum við hjónin á jólahlaðborð. Ég hlakka verulega til. Ég er farin að hlakka virkilega til jólanna. Það er svo frábær tilfinning að hlakka til.

laugardagur, 24. nóvember 2007

Það er svo...

... notalegt að skríða fram úr þegar norðan hríð geisar úti.

laugardagur, 17. nóvember 2007

Bóndinn er .....

..... sokkinn í 24. Þetta eru ekki alveg þættir fyrir mig. Annars búin að vera ágætur dagur. Stelpurnar voru duglegar og við hjónin áttum okkar spretti í tiltekt. Ég var mjög ánægð í dag þegar ég fattaði að lesið er úr nýjum bókum á undan þættinum Orð skulu standa. Segi hér með að á milli 15:20 og 17 er heilagur tími á þessu heimili.

föstudagur, 16. nóvember 2007

Brunaslysið..

... ætlar að draga dilk á eftir sér. Ég er búin að vera í veikindaleyfi þessa viku og alveg óvíst hvenær ég get farið að vinna aftur. Ég verð að segja það að starfsfólkið hér á heilsugæslunni er fffrrrááábært. Ég bið svo sannarlega að allt sé að ganga rétta veginn núna. Ég gæti alveg þegið smá hjálp með það ef einhver vill vera svo góður.

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

JIBBBÍÍÍ......

.... Eiður Smári skoraði. Ég er sko búin að bíða alveg rosalega lengi eftir þessu.

mánudagur, 12. nóvember 2007

Ekki líst mér...

... á það að herra Björgúlfur fari að styðja innlenda dagskrágerð hjá Rúv. Ég trúi mátulega því að hann komi ekki nálægt þessu. Var það ekki hann sem vildi kaupa DV til að leggja það niður af því það var honum ekki að skapi?

sunnudagur, 11. nóvember 2007

Horfði á...

...Edduna í kvöld. Svo sem ekki margt um þetta að segja. Hópur vina að veita sér og besta vini verðlaun. Mér fannst einn skera sig reyndar úr þeim hópi. Það var Gísli Einarsson. Það var eins og hann passaði ekki inn í elítuna. Hann var greinilega fulltrúi okkar "sveitalubbana". Þetta er jákvætt meint.

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Sagði við tengdapabba...

...á leiðinni frá flugvellinum á föstudaginn, hvað engar jólaskreytingar. Hann glotti og bað mig að bíða róleg. Þegar við renndum upp að húsinu hans var körfubíll í næsta garði að hengja upp jólseríur. Bílinn búinn að vera allan daginn og unnið var fram yfir miðnætti. Í gærkvöldi var reyndar partí í húsinu en ég skil ekki hvað það kemur jólaskreytingum við. En okkur er ekki ætlað að skilja alla hluti.

sunnudagur, 28. október 2007

Í dag ....

... hjálpaði ég stelpunum að sauma rúmföt fyrir barbie dúkkurnar þeirra. Það var mjög skemmtilegt. Ég hafði ekki enn haft nennu til að leyfa þeim að sauma á saumavélina. Ég er viss um að við gerum eitthvað annað mjög fljótlega.

laugardagur, 27. október 2007

Allt er...

... að komast í ganga. Ég er óðum að finna mig aftur í kennslunni. Ég eyði samt enn allt of mörgum mínútum á heilsugæslunni en þeim fer vonandi fækkandi. Það er skrítið hvernig líkaminn bregst við áfalli. Frá upphafi brunaslysins hérna heima hef ég verið í góðu jafnvægi og er enn. Áfallið lýsir sér einna helst þannig að það er eins og hluti heilans liggi í dvala. Það er eins og öll heilastarfsemi sé í hægagangi. Ég vona að þegar sárin hafa gróið alveg þá komist heilinn á fullt skrið.

miðvikudagur, 17. október 2007

Kallinn ætlar.......

........taka þátt í spruningaþættinum Útrás á morgun. Þegar hann tilkynnti mér það var mitt svar á þá leið: Ókey ..... eeennn þú hleypur ekki!!

Stelpurnar báðar að fara í samræmdpróf á morgun og hinn. Það er ágætt að þær eru samstíga í þessu. Hér verður því hátíð á föstudagskvöldið, stelpupartí og horft á húsbóndann í varpinu. Við ætlum sko að hafa fullt af stelpunammi.

mánudagur, 8. október 2007

Blámann

Nú er hann Blámann okkar orðin svo duglegur að hann situr á öxlinni á Þorgerði eða Brynhildi. Hann vill ekkert með okkur Þorbjörn hafa. Við erum smá uggandi því hann á það til að gogga til þeirra. Þær hafa því tekið upp á því að hafa flugeldagleraugu til að verja augun ef vera skyldi að honum dytti í hug að gogga í átt að augunum. Vonandi eldist goggunin af honum.

laugardagur, 6. október 2007

Veturkonungur...

...bankar á gluggann. Í dag er sko komin vetur. Úti er rok og slydda/hagl. Þorbjörn var búin að taka að sér að syngja á jarðaför á Borgarfirði. Við ætluðum að gera úr þessu fjölskylduferð en þar sem konungur ákvað að minna á sig urðum við eftir heima. Þorbjörn er s.s. á leið einn niður eftir á sumardekkjum.

fimmtudagur, 27. september 2007

Nú er...

... spurning hvort okkar hjóna er með styttra hár.

Hér ligg ég...

... fullfrísk konana og baða mig í hjúkkulöðri. Ég er búin að horfa á ansi marga þætti af Greys og á eftir að horfa á fleiri í dag eða á morgun. Ég er sennilega orðin háð þáttunum í bili. Kannski búin að fá of mikið eftir helgi.

sunnudagur, 23. september 2007

Ég hlakka svo til að...

...losna við brjóstakremið úr andlitinu
...losna við umbúðirnar
...geta sofið á maganum
...geta sofið á hægri hliðinni
...faðma dætur og eiginmann án þess að klína í þau brjóstakremi
...fara út að ganga
...komast í klippingu
...fara að vinna

Það er svo gott að hlakka til.

laugardagur, 22. september 2007

Sér um sína

Þorbjörn sér um sína. Ekki er útlit fyrir vinnu alveg á næstunni. Sárin gróa hægar en ég reiknaði með. Mig vantar eitt stykki Harry Potter til að græða þetta á stundinni. Þar sem ég verð heima eitthvað fram í næstu viku fór minn eiginmaður og keypti nýja græju handa mér. Þarf ekki mikið til þess að fá græjukallinn til að fjárfesta í nýju. Nú erum við komin með DVD spilara að nýju. Nú get ég legið í sápulöðrinu Grey´s anatomy í nokkra klukkutíma. Ekki leiðinlegt það.

miðvikudagur, 19. september 2007

Þetta kemur

Í gærkvöldi þrjóskaðist húsbóndinn við og lét Blámann ekki friði fyrr en hann hafði sest á puttann á honum. Við höfðum svelt hann af uppáhaldsmatnum sínum, eplinu, allan daginn. Hann lét sig því hafa og fékk sér fingrafar í smá stund. Kannski við reynum það sama í kvöld.

mánudagur, 17. september 2007

Allt á floti

Já hér er allt fljótandi í berjasaft. Þvílík berjatíð. Mamma og stelpurnar voru duglegar að hreinsa af runnunum í garðinum á meðan við vorum í Reykjavík. Nú eru nokkur kíló af rifsberjum í frysti og nokkrir lítara af sólberjasafa. Svo er ísskápurinn fullur af flöskum með krækiberjasaft. Eins gott að við drekkum þetta eða gerum hlaup.

laugardagur, 15. september 2007

Mr Bean

Við Brynhildur erum báðar komnar á bak við stól.

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Hreindýrakjöt upp að öxlum

Það er ekki oft sem maður er á kafi í hreindýrakjöti upp að öxlum. Kannski ekki alveg svo en samt. Ég hjálpaði mági mínum að vinna bóg af hreindýri. Var í því að hakka á meðan hann valdi bita í steikur, gúllas og hakk. Það voru góð skipti. Svo þurfti hann að svæfa litlu nöfnu mína. Þá kom í minn hlut að skera og velja. Mér var nú ekki alveg sama og hálf feimin að vera að skera þetta gull. Stóð mig samt bara vel.

mánudagur, 20. ágúst 2007

Vinnan og Blámann

Nú er ég farin að vinna aftur. Við byrjuðum á því að fara á námskeið í síðustu viku og í dag byrjaði svo undirbúiningur af fullum krafti. Ég fékk líka fartölvu til umráða í dag og er alveg ógislega ánægð með það. Þegar þetta er ritað er Blámann laus öðru sinni úr búrinu. Greyið er dálítið ringlaður. Hann flýgur upp undir lofið á veggi og glugga. Vonandi náum við honum inn í búrið í kvöld. Ég er ekki viss um að honum eigi eftir að líða vel í nótt utan við búrið.

laugardagur, 18. ágúst 2007

Fegurð

Einn af yndislegri dögum sumarsins á enda. Að vera úti í náttúrunni í góðum félagskap og yndislegu veðri er himneskt. Það er eins og tíminn standi í stað. Við vorum svo heppinn að upplifa þetta í dag.



Leon und Helga.

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

Snilli

Mikið afskaplega er Gunnar Gunnarsson góður píanisti. Diskarnir Húm, Stef og Skálm eru æðislegir.

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Vinnuhelgi

Við hjónin vorum sérstaklega dugleg þessa helgi. Á laugardaginn mætti Kobbi og klárað var að saga úr malbikinu, leggja það síðasta, múra nánast alla hattana fasta, rétta steinana af í beðinu og gengið frá öllum köntum. Í dag sagaði Þorbjörn af tröppunni og skrúfaði fasta og við gengum frá steinunum undir ruslið. Það verður reyndar gert betur síðar, að ári eða lengri tíma. Nú er bara eftir að klára beðið upp við húsið. Það verður gert þegar við fáum steypu. Vitum ekki alveg hvenær það verður. Núna eigum við fallegasta planið í bænum.



Taka þeir sig ekki vel út?

fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Nafnabreyting

Litla gæludýrinu okkar líður bara nokkuð vel. Hann er ekki enn farin að fljúga um húsið en það kemur að því bráðlega. Ákveðið var á síðasta fjölskyldufundi að skipta um nafn á krílinu og kalla hann Blámann. Það er mun þjálla í munni en Sókrates. Kannski verður aftur nafnabreyting í næstu viku hver veit.

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Ítalía

Þann 18. júlí flugum við til Rómar. Við millilentum í London og flugum svo með Ryan air áfram til Rómar. Ef einhver ætlar að fljúga með þessu flugfélagi ráðlegg á viðkomandi að lesa vel smáaletrið. Við vorum í Róm í tvo daga. Borgin er mögnuð. Við fórum á alla helstu túristastaðina nema Péturskirkjuna, eitthvað verður að bíða þar til næst. Hitinn var talsverður eða 36 til 39°. Við vorum dugleg að kæla okkur í gosbrunnum og bleyta hausinn í drykkjarbrunnum. Eftir tvo góða daga var haldið í villuna sem tengdamamma var búin að leigja. Alls vorum við 19 í ferðinni á fjórum eðalvögnum. Villan heitir La Rupe og er í héraði sem heitir Marche. Það góða við þetta hérað er að það er alveg laust við allan túrisma. Húsið var í ca 700 metra hæð og bjargaði það okkur í hitanum. Flesta dagana var flatmagað við sundlaugina, lesið, dukkinn bjór, borðaður ís og kælt sig af og til. Þrisvar var eldaður dýrindis matur en annars farið á góða veitingastaði í grendinni. Við kíktum í nokkra smábæi sem var mjög skemmtilegt að koma til. Þetta voru góðir dagar sem við áttum þarna. 28. júlí keyrðum við aftur til Rómar og flugum heim daginn eftir.



Mæðgurnar við Spænsku tröppurnar.



Montefalkone var lítið þorp í göngufæri frá húsinu. Á öllum hæðum í kringum okkur voru svona gömul kastalaþorp.



Villan La Rupe



Sundlaugin sem bjargaði okkur í hitanum.

þriðjudagur, 31. júlí 2007

Fjölgun

Þá erum við komin frá hinni frábæru Ítalíu. Segi betur frá ferðinni seinna ásamt myndum. Við keyrðum heim í dag. Áður en við lögðum í hann var komið við í dýrabúð og keyptur sætur lítill pási sem var gefið nafnið Sókrates. Greyið þurfti að keyra með okkur í átta klukkustundir. Núna þessa stundina er hann í afslöppun. Ætli hún þurfi ekki að standa í nokkra daga. Vonandi hefur hann ekki bilast á þessu volki.

fimmtudagur, 12. júlí 2007

Planið, planið, planið

Við höfum hugsað um lítið annað síðustu daga. Nú vantar okkur bara einn poka í viðbót til að geta klárað að leggja á planið. Við reiknuðum bara pínu vitlaust í upphafi eða þá að planið hafi stækkað eftir að við fórum að leggja á það. Vonandi fáum við pokann í kvöld og klárum á morgun því að laugardaginn er stefnan sett suður á land.

Hér er smá sýnishorn.


Ég fór snemma í morgun að tína upp úr pokum. Veðrið var frábært.


Þorbjörn að sandsópa.

föstudagur, 6. júlí 2007

Rólega deildin

Í dag héldum við upp á afmælið hennar Brynhildar. Á afmælisdaginn verðum við að heima eins og venjan er. Það getur verið hrikalega fúlt að eiga afmæli í miðjum júlí. Jæja hún bauð krökkum úr bekknum sínum. Við hjónin erum vön mjög háværum hóp ungra stúlkna þegar sú eldri á afmæli. Við gleymum hins vegar alltaf hversu róleg bekkjarfélagar þeirrar yngri eru. Þau eru svo róleg að húsfrúin sofnaði á meðan afmælinu stóð.

mánudagur, 2. júlí 2007

Spurning

Í einni örugglega ágætri búð hér á Austurlandi eru til sölu:
Ljós og lampar.
Hljómtæki og sjónvörp.
Video og DVD spilarar.
Myndavélar og kíkirar???????????

miðvikudagur, 27. júní 2007

Rigningin er æði

Það var afskaplega notalegt að vakna í morgun og heyra í rigningunni dynja á þakinu. Ekki veitti af bleytu fyrir gróðurinn. Ég fór áðan upp í skóg og gekk smá hring. Skógurinn angaði unaðslegum birkiilmi. Allt rigninunni að þakka. Í kvöld ætlum við að hafa humarsúpu, byrjuðum að búa til soð kl. 11 í morgun. Heit súpa passar við veðurfarið úti.

þriðjudagur, 26. júní 2007

Framkvæmdir

Nú er allt að gerast hérna hjá okkur á 16. Kobbi mágur kom á gröfunni á laugardaginn, jafnaði og gróf skurð hér á planinu fyrir framan. Þorbjörn hamaðist á þjöppunni eftir hádegi í dag. Núna áðan komu steinarnir. Nú vantar okkur bara sand og svo er að byrja. Kannski verður planið til áður en við förum í frí. Hver veit. Hlakka mikið til þegar öllu verður lokið.

mánudagur, 25. júní 2007

Amma Ruth

Þennan mánaðardag árið 1913 fæddist amma Ruth í Þýskalandi. Hún hefði orðið 94 ára í dag. Í fyrra þegar við vorum á ferðinni stórfjölskyldan komum við í kirkjugarðinn í Wismar. Við fórum að ættargrafreit fjölskyldunnar mömmu. En því miður var búið að jafna allt við jörðu, taka steinana og leggja torf yfir. Það eru víða reglur sem við skiljum ekki að skuli vera til. Þar sem við stóðum sungum við til að minnast þeirra sem þarna hvíldu. Þetta var afar hjartnæm stund. Blessuð sé minning ömmu Ruthar.

sunnudagur, 24. júní 2007

Come again

Ég var að hugsa um að hætta þessu algjörlega. Einhver smá niðursveifla en nú er allt á uppleið.

Í síðustu viku gerðist ég dagmamma. Helga frænka mín og nafna var hér hjá mér. Það var virkilega gaman að gæta hennar þessa daga.

Helgin hefur verið viðburðarík. Á föstudagskvöldið fórum við í sólstöðugöngu. Ferðin var afar skemmtileg. Við urðum öll fyrir hughrifum þegar við sáum sólina síga bak við ský fallega appelsínugul rétt fyrir miðnættið. Á laugardaginn fórum við á skógardaginn mikla í Hallormsstaðarskógi. Gæddum okkur á nautakjöti, eldsteiktum lummum og ketilkaffi. Þetta var afar skemmtilegur dagur.

Í dag slóum við lóðina. Okkur tókst að skekkja hnífinn á sláttuvélinni, brjóta orfið og sólbrenna frekar mikið. Já svo sannarlega viðburðarík helgi.