laugardagur, 30. ágúst 2008

Nákvæmlega fyrir ári...

... lá ég niðri á heilsugæslu með annanstigs bruna í andliti og öxl. Ég minntist á þetta við bóndann og við brostum bæði. Gott að þetta hafði ekki meiri áhrif á okkur en það. Nú þarf ég ekki að vara mig eins mikið á sólinni eins og ég hef gert. Ég fer sem sagt úr sólarvörn 50+ í 20. Stelpurnar eru að búa til rifsberjakrap. Hlakka til að smakka.

föstudagur, 29. ágúst 2008

Þá er fyrsta...

... kennsluvikan á enda. Ég verð nú að viðurkenna það að ég er ansi þreytt. Það verður gott að sofa út í fyrramálið.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Þegar allir eru ...

... að lýsa stolti yfir strákum í Reykjavík sem svo sannarlega hafa staðið sig vel langar mig miklu meira að hrósa bóndanum mínum (stráknum mínum). Ég er svo afar stolt af því hversu vel hans stendur sig í nýja starfinu. Hann á virkilega skilið viðurkenningu þó ekki væri nema klapp á bakið fyrir dugnað og elju.

laugardagur, 23. ágúst 2008

Ég er afskaplega...

... ánægð með Konna sem rekur BT hér á Egilsstöðum. Brynhildur var búin að fá leyfi til að kaupa tölvuleik fyrir 12+. Einhver Sims útgáfa. Hún fór með pening í BT en fékk ekki að kaupa leikinn nema foreldri væri með og gæfi samþykki sitt. Hún hringdi því í okkur ég fór niður eftir og hrósaði Konna fyrir gott aðhald. Hann var mjög þákklátur fyrir hrósið en sagði jafnframt að það væru nú ekki allir foreldrar ánægðir með þetta og létu hann heyra það. Ég spyr mig af hverju?

sunnudagur, 17. ágúst 2008

Ormsteitið

Nú er Ormsteitið í fullum gangi. Á föstudaginn byrjaði teitið með glæsilegri karnivalgöngu. Brynhildur var svo heppin að fá að taka þátt í göngunni upp á íþróttavöll.

Hún var svona blóm (tekið í annarri göngu)



og leit svona út í framan



Eftir hátíðina var gengið niður að fljóti á eftir alls kyns upplýstum verum og fyrirbærum.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Sumarfríið á enda

Nú er sumarfríið mitt senn á enda. Á morgun fer ég á námskeið í tvo daga og svo byrjar ballið. Ég hlakka virkilega til að takast á við veturinn. Ég er virkilega ánægð með þetta frí. Það er svo langt síðan við höfum ferðast um landið. Við erum virkilega að finna okkar í útilegunum. Gerum örugglega miklu meira af því næsta sumar.

mánudagur, 11. ágúst 2008

Um helgina...

... héldum við mamma og Brynhildur upp á afmæli okkar allra. Mamma var sjötug, ég fertug og Brynhildur tíu. Við héldum veislu í bústað Kobba og systkina, Litlu-Grund. Það var virkilega gaman hversu margir sáu sér fært að koma og fagna með okkur. Mér fannst þetta virkilega gaman. Það var veitt í litla vatninu, farið inn í Hvanngil, sungið, spjallað, hlegið og borðað. Því miður á ég ekkert nema myndupptökur af veislunni þar sem mér áskotnaðist þessi fína upptökuvél í afmælisgjöf frá tengdafjölskyldunni. Í gær keyrðu svo allir heim og komum við hingað seinnipartinn örþreytt en virkilega ánægð eftir helgina. Enn og aftur takk fyrir mig. Ég á virkilega frrrábæra fjölskyldu.

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Aðgerðalausir dagar

Stundum þoli ég ekki að vera í fríi. Síðustu daga hef ég hangið hérna heima og ekki haft mig upp í að gera eitt né neitt. Góni á fatahrúgurnar daufum augum og sötra hálfkalt kaffi. Orka og dugnaður ég leita ykkar!!!!!

laugardagur, 2. ágúst 2008

Ferðahandbækur

Við hjónin höfum uppgötvað það að við eigum bara ansi margar góðar ferðahandbækur. Í sumar áskotnaðist okkur 101 Ísland og höfum notað hana þó nokkuð. Þá eigum við Ferðahandbók fjölskyldunnar þar eru margir spennandi punktar. Við keyptum okkur bók um Hornstrandir. Hún var auðvitað notuð óspart á Hornströndum. Þegar ég var svo að leita að einhverju í grænuhillunni rakst ég að enn eina ferðahandbókina. Hún heitir Íslensk fjöll. Í henni eru leiðarlýsingar á 151 tind á Íslandi. Á morgun er því áætlað að taka hana með og ganga á Hvítserk í Borgarfirði. Vonandi verður ekki þoka.