miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Hreindýrakjöt upp að öxlum

Það er ekki oft sem maður er á kafi í hreindýrakjöti upp að öxlum. Kannski ekki alveg svo en samt. Ég hjálpaði mági mínum að vinna bóg af hreindýri. Var í því að hakka á meðan hann valdi bita í steikur, gúllas og hakk. Það voru góð skipti. Svo þurfti hann að svæfa litlu nöfnu mína. Þá kom í minn hlut að skera og velja. Mér var nú ekki alveg sama og hálf feimin að vera að skera þetta gull. Stóð mig samt bara vel.

mánudagur, 20. ágúst 2007

Vinnan og Blámann

Nú er ég farin að vinna aftur. Við byrjuðum á því að fara á námskeið í síðustu viku og í dag byrjaði svo undirbúiningur af fullum krafti. Ég fékk líka fartölvu til umráða í dag og er alveg ógislega ánægð með það. Þegar þetta er ritað er Blámann laus öðru sinni úr búrinu. Greyið er dálítið ringlaður. Hann flýgur upp undir lofið á veggi og glugga. Vonandi náum við honum inn í búrið í kvöld. Ég er ekki viss um að honum eigi eftir að líða vel í nótt utan við búrið.

laugardagur, 18. ágúst 2007

Fegurð

Einn af yndislegri dögum sumarsins á enda. Að vera úti í náttúrunni í góðum félagskap og yndislegu veðri er himneskt. Það er eins og tíminn standi í stað. Við vorum svo heppinn að upplifa þetta í dag.



Leon und Helga.

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

Snilli

Mikið afskaplega er Gunnar Gunnarsson góður píanisti. Diskarnir Húm, Stef og Skálm eru æðislegir.

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Vinnuhelgi

Við hjónin vorum sérstaklega dugleg þessa helgi. Á laugardaginn mætti Kobbi og klárað var að saga úr malbikinu, leggja það síðasta, múra nánast alla hattana fasta, rétta steinana af í beðinu og gengið frá öllum köntum. Í dag sagaði Þorbjörn af tröppunni og skrúfaði fasta og við gengum frá steinunum undir ruslið. Það verður reyndar gert betur síðar, að ári eða lengri tíma. Nú er bara eftir að klára beðið upp við húsið. Það verður gert þegar við fáum steypu. Vitum ekki alveg hvenær það verður. Núna eigum við fallegasta planið í bænum.



Taka þeir sig ekki vel út?

fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Nafnabreyting

Litla gæludýrinu okkar líður bara nokkuð vel. Hann er ekki enn farin að fljúga um húsið en það kemur að því bráðlega. Ákveðið var á síðasta fjölskyldufundi að skipta um nafn á krílinu og kalla hann Blámann. Það er mun þjálla í munni en Sókrates. Kannski verður aftur nafnabreyting í næstu viku hver veit.

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Ítalía

Þann 18. júlí flugum við til Rómar. Við millilentum í London og flugum svo með Ryan air áfram til Rómar. Ef einhver ætlar að fljúga með þessu flugfélagi ráðlegg á viðkomandi að lesa vel smáaletrið. Við vorum í Róm í tvo daga. Borgin er mögnuð. Við fórum á alla helstu túristastaðina nema Péturskirkjuna, eitthvað verður að bíða þar til næst. Hitinn var talsverður eða 36 til 39°. Við vorum dugleg að kæla okkur í gosbrunnum og bleyta hausinn í drykkjarbrunnum. Eftir tvo góða daga var haldið í villuna sem tengdamamma var búin að leigja. Alls vorum við 19 í ferðinni á fjórum eðalvögnum. Villan heitir La Rupe og er í héraði sem heitir Marche. Það góða við þetta hérað er að það er alveg laust við allan túrisma. Húsið var í ca 700 metra hæð og bjargaði það okkur í hitanum. Flesta dagana var flatmagað við sundlaugina, lesið, dukkinn bjór, borðaður ís og kælt sig af og til. Þrisvar var eldaður dýrindis matur en annars farið á góða veitingastaði í grendinni. Við kíktum í nokkra smábæi sem var mjög skemmtilegt að koma til. Þetta voru góðir dagar sem við áttum þarna. 28. júlí keyrðum við aftur til Rómar og flugum heim daginn eftir.



Mæðgurnar við Spænsku tröppurnar.



Montefalkone var lítið þorp í göngufæri frá húsinu. Á öllum hæðum í kringum okkur voru svona gömul kastalaþorp.



Villan La Rupe



Sundlaugin sem bjargaði okkur í hitanum.