fimmtudagur, 26. júní 2008

Vikan hefur verið...

... hálf undarleg. Þorbjörn svona hálfur eða 75% í fríi og frumburðurinn á námskeiði á Eiðum. Hún var svo heppin að fá að taka þátt í listanámskeiði á vegum Myndlistaskóla Reykjavíkur og Eiða ehf. Fljótsdalshérað styrkti þetta verkefni og fengu því 8 krakkar úr sveitafélaginu að vera með. Hún fór á sunnudaginn og við höfum lítið sem ekkert heyrt í henni síðan. Það verður ansi gott að fá hana heim næstu helgi. Þorbjörn hefur verið með anna fótinn í vinnu. Hann fer greinilega ekki almennilega í frí fyrr en við höldum burt af staðnum.

laugardagur, 21. júní 2008

Skógardagurinn mikli

Dagurinn byrjaði á því að við hjónin keyptum okkur svefnpoka. Ég á virkilega eftir að sakna þess að sofa ekki í sama poka og Þorbjörn. Jú, sko við höfum sofið í gömlum Gefjunarpokum sem hægt er að renna tveimur saman og búa til hjónapoka. Gefjunarpokarnir eru síðan ég var pínulítil stelpa. Svo keyptum við dót sem Þorgerður þarf að hafa á listanámskeiðinu og brunuðum svo upp í Hallormsstað. Þar var skógardagurinn haldin hátíðlegur. Heilgrillað naut, ketilkaffi, lummur steiktar yfir eldi, pylsur, drykkir, skógarhögg og markt fleira var að gerast eða á boðstólnum. Brynhildi varð að orði uppfrá að sig langaði í nautakjöt í kvöldmatinn. Það þurfti ekki að nauða mikið til þess að fá því framgengt. Nú eru kartöflurnar á grillinu, sósan tilbúin og húsbóndinn setur fyrir framan skjáinn að horfa á fótbolta. Skellum kjötinu á eftir smá tíma.

föstudagur, 20. júní 2008

Það er dálítið..

... undarlegt það sem gerst hefur undanfarna daga. Maður hefur alltaf getað gengið um landið öruggur með sig. En nú er ég allt í einu ekki alveg viss. Við ætlum að fara vestur eftir tvær vikur. Gistum í Hornbjargsvita og ganga yfir í Hornvík. Ég er búin að hlakka mikið til en nú er ég ekki viss hvort ég hlakka til alla vega ekki að ganga. Veit vel litlar líkur og allt það en samt. Þetta er frekar skrítin tilfinning. Kannski er þetta það sem koma skal að vera á útkíkkinu eftir hvítabjörnum þegar farið er út í náttúruna. Jafnvel best að venjast því strax.

þriðjudagur, 17. júní 2008

Gleðilega hátið!

Dagurinn var bara nokkuð góður. Stelpurnar fengu blöðrur og pening til að eyða í hitt og þetta. Sú yngri var fljót að eyða sínu öllu. Húsmóðirin var ein af sex bæjarbúum sem röltu með lúðra eða flautur fyrir skrúðgöngunni. Við stóðum okkur bara vel en vonandi verða fleiri næsta ár. Fremstir í göngunni voru hestamenn á fákum sínum svo komur skátar með fána og þar á eftir lúðrarnir. Við máttum hafa okkur öll við að stíga ekki í dellur sem voru á götunni. Reyndar var ég með aðstoðarmann sem varaði mig við en tókst samt að stíga í góða dellu. Milli kl. 15 og 16 sáum við hjónin svo um lukkuhús á vegum fimleikadeildarinnar. Það var mikið að gera og skemmtilegt að aðstoða stúlkurnar sem að þessu stóðu en þeirra á meðal var okkar yngri. Hún tók þátt í fimleikatriði og stóð sig glæsilega eins og alltaf. Í kvöld ætlum við að horfa á fótbolta og kíkja kannski á fjölskyldudansleik í íþróttahúsinu með stelpunum.

sunnudagur, 15. júní 2008

Þessi litla stúlka...



... var skírð í gær. Hún fékk nafnið Katrín Jökla. Athöfnin fór fram í Eiríksstaðakirkju á Jökuldal. Dagurinn var heiður og fagur. Katrín litla gat ekki verið heppnari með skírnardag.



Fallegur dagur ekki satt.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Við unnum...

... rauðvínspottinn annan mánuðinn í röð. Við sem erum ekki hálfnuð með fyrri vinninginn!!!!!!!!!!!!

Þá er ég ...

... komin í sumarfrí. Endaði þetta starfsár með því að fara á frábært námskeið um bernskulæsi. Jane Baker er yndisleg kona sem miðlaði til okkar frábærum hugmyndum um hvernig kenna á krökkum lestur.

Nú er bara að leyfa sér að fara í frí. Hætta að hugsa um næsta vetur í bili og hlaða niður orku.