mánudagur, 26. mars 2012

Vetur, sumar, vor og haust.

Mikið líður tíminn hratt. Við erum búin að dvelja hér í bráðum sjö mánuði. Nú finnum við að vorið er handan við hornið og bíðum spennt eftir að sjá eplatréð í garðinum blómstra. Helgin gaf okkur forsmekkin að öllu saman. Við sóluðum okkur, sumir böðuðu táslurnar í sjónum, aðrir nældu sér í kvef því þeir kunnu ekki að klæða af sér hafgoluna, fengum okkur göngutúr og borðuðum svínarif og maís. Nú hefur hins vegar dregið upp á sig og rignir og rignir. Það er örugglega gott fyrir gróðurinn. Við erum þó öll fegin að mesta grámyglutíminn er yfirstaðin og bara framundan sól og sumarylur. Við viljum a.m.k. trúa því. Hjá okkur hér á Oxford st. er túristatíminn í hámarki. Gestir koma og fara og gleðja okkar litlu hjörtu innilega. Í morgun lentu Tinna og Daníel í Keflavík og nú eru Grétar, Ásthilur, Brynjar og Heiðdís á leiðinni í loftið. Núna þessa stundina sit ég með tölvuna í fanginu hér í stofunni, Kobbi og Katrín horfa á múmínálfana og Ruth og Þorbjörn eru uppi að lesa. Allar hinar stelpurnar eru í skólanum. Ósköp venjulegur dagur og engin stór verkefni á dagskrá nema að fara í Red apple eftir ávöxtum og leika sér í tölvunni.

Engin ummæli: